
Go Leiga styður Landsbjörg
Við hjá Go Leigu höfum í mörg ár stutt við ómetanlegt starf björgunarsveitanna um allt land. Frá árinu 2018 höfum við keypt stóru útgáfuna af Neyðarkallinum á hverju ári. Þetta er táknrænn stuðningur við þá sjálfboðaliða sem á hverjum degi tryggja öryggi fólks á íslenskum vegum og víðar.
Hvað er Neyðarkallinn?
Neyðarkallinn er árlegt fjáröflunarátak Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þar sem seldar eru litlar og stórar fígúrur sem tákna björgunarsveitafólk að störfum. Hver Neyðarkall ber sérstaka sögu og endurspeglar raunverulegt starf sveitanna, hvort sem um er að ræða sjóbjörgun, fjallabjörgun eða viðbrögð í óveðri.
Neyðarkallinn 2025 - tákn um minningu og mannlega reisn
Árið 2025 markar tuttugasta árið sem Neyðarkallinn kemur út. Í ár er hann tákn um meira en björgunarstarf og fjáröflun. Hann er tákn um minningu, fjölbreytileika og mannlega reisn.
Neyðarkallinn í ár heiðrar minningu Sigurðar Kristófers McQuillan Óskarssonar, formanns björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, sem lést í hörmulegu slysi á straumvatnsbjörgunaræfingu í fyrra í Tungufljóti í Biskupstungum. Sigurður Kristófer var ungur maður sem helgaði líf sitt því að hjálpa öðrum og þessi litli Neyðarkall stendur nú sem tákn þess hugarfars.
Björgunarsveitirnar okkar eru einstakar á heimsvísu. Rúmlega 5000 manns starfa þar í sjálfboðavinnu, tilbúin til að bregðast við hvenær sólarhringsins sem er, alla daga ársins. Sigurður Kristófer var einn þessara sjálfboðaliða, fórnfús og hjálpsamur fyrir þjóð sína. Blessuð sé minning Sigurðar.

Samfélagsleg ábyrgð og öryggi á vegum Íslands
Fyrir okkur hjá Go Leigu er öryggi á vegum Íslands hjartans mál. Þúsundir ferðamanna treysta á bílana okkar á hverju ári til að kanna landið og við vitum hversu mikilvægt það er að björgunarsveitirnar séu ávallt vel búnaðar og viðbragðsfærar. Stuðningurinn við Neyðarkallinn er leið til að sýna virðingu, þakklæti og ábyrgð gagnvart þessu mikilvæga samfélagsstarfi.
„Við teljum það sjálfsagt að leggja okkar af mörkum til að efla björgunarsveitirnar. Starf þeirra snertir okkur öll, bæði þá sem ferðast um landið og okkur sem búum hér. Með hverjum Neyðarkalli sendum við tákn um traust, samstöðu og von,“ segir Benedikt Helgason, einn eigenda Go Leigu.
Neyðarkallarnir í gegnum árin
Myndin hér að neðan sýnir hluta safnsins okkar, stóru Neyðarkallana sem Go Leiga hefur eignast frá 2018 til 2025. Hver þeirra stendur fyrir einstakt verkefni og tímabil í sögu Landsbjargar og minnir okkur á hversu mikilvæg samstaða og sjálfboðaliðastarf eru fyrir íslenskt samfélag.

Tökum höndum saman
Við hvetjum alla til að styðja Neyðarkallinn, hvort sem það er með kaupum, þátttöku eða einfaldlega með því að deila verkefninu áfram. Með því styrkjum við öryggi, samstöðu og björgunarstarf sem gerir Ísland að öruggara landi fyrir okkur öll.
