Leiguskilmálar

Almennir skilmálar

  1. Leigutaki samþykkir ákvæði leigusamnings þessa og hefur fengið afrit af honum.
  2. Leigutaki skal vera orðinn að minnsta kosti 20 ára.a. Undanþágur frá lágmarksaldri geta átt við þegar það er sérstaklega kveðið á um, svo sem vegna tilboða á smábílum.
  3. Ökumaður skal hafa gilt ökuskírteini. Ökuréttindi skulu hafa verið gild í minnst eitt ár og þurfa að gilda út leigutímann eins og hann er tilgreindur á leigusamning.
  4. Viðskiptavinum er heimilt að afturkalla bókun verði ekki af viðskiptum meðal annars sökum greiðslumats, framboði á bifreið eða tímasetningu afhendingar.
  5. Framvísun kreditkorts leigutaka er skilyrði fyrir leigu sem trygging fyrir hvers konar aukakostnaði sem til getur fallið, svo sem vegna bílastæða- og veggjalda ásamt stöðusektum og sektum fyrir umferðarlagabrot.
  6. Leigutaki skal skila ökutækinu ásamt öllum fylgihlutum sem var í bifreiðinni fyrir útleigu. Sama á við um aukahluti sem leigðir eru með bifreiðinni.
  7. Skili leigutaki ekki ökutækinu á réttum tíma samkvæmt leigusamningi þessum, eða semji við leigusala um áframhaldandi leigu, er leigusala eða lögreglu heimilt að taka ökutækið í sína vörslu, án frekari fyrirvara, á kostnað leigutaka.
  8. Sé um árekstur eða tjón að ræða skal leigutaki/ökumaður tafarlaust tilkynna um atburðinn til leigusala, lögreglu eða annara þeirra aðila sem sjá um skýrslutöku vegna tjóna. Það er á ábyrgð leigutaka að gerð sé tjónaskýrsla í öllum tilfellum þegar árekstur eða tjón verður.
  9. Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum kostnaði við flutning ökutækis, ef um er að ræða flutning vegna tjóns á ökutækinu, eða af öðrum ástæðum, og hefur greiðsla sjálfsábyrgðargjalds trygginga engin áhrif þar á.
  10. Leigutaka er óheimilt að nota ökutækið til flutninga á farþegum gegn greiðslu, lána það eða framleigja.
  11. Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum stöðusektum, bílastæða- og veggjöldum og sektum fyrir umferðarlagabrot.
  12. Ljúki leigutaki leigunni fyrr en umsaminn leigusamningur segir til um er leigusala heimilt að innheimta fullar eftirstöðvar leigusamnings.
  13. Leigutaki er óheimilt að framkvæma viðgerðir eða breytingar á ökutækinu án samþykkis leigusala.
  14. Leigutaki skal ekki reykja í ökutækinu. Brot gegn grein þessari heimilar leigusala að beita leigutaka févíti að upphæð kr. 40.000.
  15. Kílómetrafjöldinn (km) sem ökutækinu er ekið meðan samningur þessi er í gildi, ákvarðast með álestri á venjulegan kílómetramæli sem fylgir ökutækinu frá framleiðanda. Leigutaki skal tilkynna leigusala svo fljótt sem auðið er, ef kílómetramælirinn er eða verður óvirkur á leigutímanum. Allar tilraunir til að breyta lestri kílómetramælisins eða aftengja hann er brot á samning þessum.
  16. Aki leigutaki yfir innifaldan kílómetrafjölda (km) ber leigutaki skylda að greiða kr. 14 fyrir hvern umfram ekinn kílómeter.
  17. Leigusali er heimilt að kanna lánshæfi leigutaka hjá þriðja aðila áður en samningur er gerður. Leigutaki getur ekki opnað viðskiptareikning hjá leigusala án þess að standast lánshæfismat.
  18. Leigutaki ber að halda hinu leigða vel við og tilkynna leigusala um allar skemmdir og bilanir jafnóðum og þær verða.
  19. Leigutaki er skylt að koma með ökutækið til þjónustuskoðunar og/eða eftirlits eins og kveðið er á um í samningi þessum og láta leigusala annast viðhald og viðgerðir á hinu leigða. Leigutaki viðurkennir rétt leigusala til þess að kalla bifreið skriflega inn til skoðunar hvenær sem er á leigutímanum með 7 daga fyrirvara þar sem kannað er ástand bifreiðarinnar og mælastaða tekin. Sé ekki orðið við þeirri innköllun geta starfsmenn leigusala tekið bifreiðina til skoðunar hvar sem til hennar næst og án aðfarargerðar. Leigutaki veitir í þessu skyni fullan aðgang að bifreiðinni og geymslustað hennar.
  20. Leigutaki ber ábyrgð á því að færa ökutækið til bifreiðaskoðunar á réttum tíma. Kostnaður við bifreiðaskoðun er þó reikningsfærður á leigusala hjá eftirtöldum skoðunarstöðvum; Frumherji, Tékkland, Aðalskoðun. Vakin er athygli á því að vanrækslugjald er kann að vera lagt á bifreiðina sökum þess að hún hefur ekki verið færð til skoðunar skal greitt af leigutaka.
  21. Leiguverð getur tekið breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs, ákvarðanir stjórnvalda eða breytingar á lögum og reglum, þar á meðal vegna nýrra gjalda, skatta eða breytinga á virðisaukaskatti.
  22. Leigutaka er skylt að sjá til þess að olíuskipti, reglubundin þjónustuskoðun og lögboðin ökutækjaskoðun fari fram á réttum tíma. Vanræki leigutaki þessa skyldu er leigusala heimilt að leggja á leigutaka vanrækslugjald í samræmi við gjaldskrá Go Leigu.

Skyldur leigusala

23. Leigusali ábyrgist afhendingu ökutækis á umsömdum tíma og að það fullnægi kröfum sem gerðar eru um það.

24. Leigusali skal upplýsa leigutaka um innihald leigusamningsins.

25. Ökutækið skal afhent leigutaka með fullan eldsneytisgeymi af eldsneyti.

26. Leigusali ábyrgist að vera ávallt með gilda starfsábyrgðartryggingu.

27. Leigusali er ekki ábyrgur fyrir hvarfi muna eða skaða á þeim, sem leigutaki, eða einhver annar aðili, geymdi eða flutti í eða á ökutækinu.

28. Ef ökutækið bilar af ástæðum sem ekki er á ábyrgð leigutaka skal leigusali afhenda leigutaka sambærilegt ökutæki svo fljótt sem auðið er. Ef bilunin er minniháttar er leigutaka, með samþykki leigusala, heimilt að láta framkvæma viðgerð á ökutækinu.

a. Ef viðgerð á bifreið tekur lengri tíma en 2 klst. ber leigusali skilda að afhenta leigtaka aðra bifreið á meðan viðgerð stendur án endurgjalds. 

b. Þegar lánsbíl er skilað ber leigutaki skylda að skila bílnum með fullum tank af eldsneyti.

c. Ef lánsbíl hefur ekki verið skilað innan 24 klst. eftir að leigusali hefur upplýst leigutaka að bifreið sé tilbúin til afhentingar er leigusala heimilt að gjaldfæra hvern auka dag samkvæmt gjaldskrá heimasíðu.

29. Leigusali áskilur sér rétt til að neita leigutaka um leigu á bifreið áður en leigutaki veitir bifreiðinni móttöku jafnvel þó samningur hafi verið undirritaður.

30. Leigusali skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur og umferðarmerki.

Tryggingar

31. Samningur þessi inniheldur kaskótryggingu sem takmarkar fjárhagslega ábyrgð leigutaka vegna tjónstilvika sem ekki fást bætt úr hendi þriðja aðila, þ.m.t. í gegnum ábyrgðartryggingu.

32. Leigutaki getur lækkað sjálfsábyrgð með því að kaupa auka kaskótryggingu. Eigin áhætta fyrir hvert tjón sem leigutaki er tryggður fyrir samkvæmt leigusamningnum er tilgreind í samningnum.

33. Verði tíðni tjóna umtalsvert meiri en almennt gerist áskilur leigusali sér rétt til að hækka sjálfsábyrgð í hverju tjóni upp í allt að kr. 400.000, að undangenginni skriflegri tilkynningu þar um til leigutaka og / eða rifta leigusamningi.

34. Hver sjálfsábyrgð nær aðeins til eins óhapps. Sé um að ræða fleiri en eitt tjón sem augljóslega hafa ekki átt sér stað í einu og sama óhappinu gildir hver og ein sjálfsábyrgð aðeins um eitt óhapp.

35. Að því marki sem tjón á ökutæki fæst ekki bætt úr kaskótryggingu ökutækisins ber leigutaki fulla ábyrgð á hverju tjóni sem verður á ökutækinu og getur ábyrgð hans numið allt að fullu verðgildi ökutækisins. Skal leigutaki greiða að fullu allan kostnað vegna tjóns eða skemmda á ökutækinu sem hann ber ábyrgð á skv. verðskrá eða verðmati frá leigusala.

36. Tjónstilvik sem kaskótrygging nær ekki yfir:

a. Tjón sem hlýst af ásetningi ökumanns eða vegna stórfelldrar gáleysis hans.

b. Tjón sem verður þegar ökumaður er undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfilyfja, eða er að öðru leyti óhæfur til að stjórna ökutækinu á öruggan hátt.

c. Tjón af völdum þátttöku í kappakstri, hraðaksturskeppnum eða reynsluakstri.

d. Tjón af völdum hernaðar, uppreisna, óeirða eða annarra sambærilegra atburða.

e. Skemmdir af völdum dýra, þar á meðal árekstra, biti og rispa.

f. Brunatjón á innréttingum ökutækis, þar á meðal brunagöt eða sviðna í sæti, gólfteppi eða mottur.

g. Skemmdir sem einungis varða hjól, hjólbarða, fjöðrun, rafgeyma, gler (annað en fram- og hliðar­rúður), viðtæki og upplýsingaskjái, svo og tjón vegna þjófnaðar einstakra hluta úr ökutækinu og skemmdir sem þar af leiðandi kunna að verða.

h. Skemmdir af akstri á ósléttri akbraut, svo sem á gírkassa, drifi, öðrum hlutum í eða á undirvagni ökutækisins, skemmdir á undivagni er hljótast af því að ökutækið tekur niðri á ójöfnum akbrautum, svo sem hryggjum eftir veghefla, jarðföstu grjóti á akbraut eða við akbrautarbrúnir. Sama gildir um skemmdir er verða þegar laust grjót hrekkur undir ökutækið í akstri.

i. Skemmdir vegna aksturs þar sem bannað er að aka ökutækinu, svo og við akstur á vegatroðningum, götuslóðum, snjósköflum, ís, yfir óbrúaðar ár eða læki, um fjörur, forvaða eða vegleysu.

j. Tjón af völdum sands, möl, ösku, vikurs eða annarra jarðefna sem fjúka á ökutækið.

k. Tjón sem verður við flutning ökutækis sjóleiðis, þar á meðal tjón af völdum sjóbleytu.

l. Tjón á fólksbílum sem verður við akstur á vegum sem merktir eru F á opinberum kortum, auk aksturs á Kjöl (vegur 35) og Kaldadal (vegur 550).m. Tjón leigusala af völdum þjófnaðar á hinu leigða ökutæki, þar með talið kostnaður sem af slíku hlýst.

n. Vatnstjón á ökutæki.o. Kostnaður vegna sóttfarar ökutækis sem ekki er skilað á umsömdum skilastað.p. Tap á skráningarmerki ökutækis.

r. Kostnaður vegna tapaðra, stolinna eða skemmdra lykla eða fjarstýringarlykla.s. Skemmdir sem verða vegna rangrar notkunar eldsneytis eða vökva.

t. Tjón á hurðum, hjólhlífum, lömum eða öðrum hlutum ökutækis af völdum vinds við opnun eða lokun hurða.

37. Kaskótrygging tekur ekki til tjóns sem verður ef ökutæki er ekið í aðstæðum þar sem opinberar mælingar Veðurstofu Íslands sýna vindhraða yfir 24,5 m/sek.

38. Vátrygging samkvæmt þessum leigusamningi er veitt af Vörður, kt. 441099-3399, Borgartúni 19, 105 Reykjavík. Leigutaki samþykkir að vátryggingafélagið sé upplýst um tilvist og efni samningsins, þar með talið samningsaðila. Go Leiga (Bílaleigan Go ehf.) starfar einungis sem dreifingaraðili vátryggingar. Vátryggingargjöld fela í sér umsýslu- og þóknunargjald Go Leigu (Bílaleigan Go ehf.). Skilmálar vátryggingar, sem gilda fyrir þennan samning, eru aðgengilegir á heimasíðu Vörður, www.vordur.is (http://www.vordur.is). Almennar upplýsingar um vátrygginguna (IPID) er einnig að finna á heimasíðu Vörður. Kvartanir vegna vátryggingarbóta, skilmála eða skilyrða má beina til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, www.fme.is (http://www.fme.is).

Greiðslur

39. Fáist ekki skuldfærsluheimild á greiðslukort skv. boðgreiðslusamningi er samningur komin í vanskil. Greiði leigutaki ekki leiguna og aðrar greiðslur sem gjaldfallnar eru og honum ber að greiða á gjalddaga, skal hann greiða bílaleigunni hæstu lögleyfðu dráttarvexti af hinni vangreiddu fjárhæð auk kostnaðar skv. framlagðri gjaldskrá bílaleigunnar ásamt öðrum kostnaði sem af getur hlotist, svo sem lögfræði- eða málskostnað. Dráttarvextir eru ákvarðaðir skv. ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2000 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, af gjaldfallinni fjárhæð og kostnaði

40. Leigusala er heimilt að gjaldfæra á greiðslukorti leigutaka leigugjald og annað sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi þessum, svo sem greiðslur vegna tjóns sem verður á ökutæki á meðan það er í vörslu leigutaka og skal leigusali einn hafa ákvörðunarvald um hvenær það skuli gert, og hvort það sé gert í einu lagi eða ekki. Réttur þessi stendur óhaggaður í 12 mánuði eftir að ökutæki hefur verið skilað til leigusala.

41. Ef til kemur breyting af hálfu stjórnvalda á kílómetragjaldi, sem ætlað er umráðamanni ökutækja, þá er það gjaldfært á leigutaka mv. innifalinn kílómetrafjölda á mánuði.

42. Leigutaki ber ábyrgð á öllum stöðumælasektum, veggjöldum og vanrækslugjöldum vegna skoðunar. Leigusali getur innheimt þjónustugjald fyrir meðhöndlun sekta.

43. Leigusali áskilur sér rétt til að innheimta sérstakt gjald fyrir notkun nagladekkja samkvæmt gjaldskrá, óski leigutaki eftir slíkri þjónustu, þar sem hún er ekki innifalin í leigugjaldi.

44. Leigutaki skal tilkynna leigusala tafarlaust um breytingar á aðsetri eða greiðslukortaupplýsingum sem tengjast samningi þessum.

Ökuritar

Ökutæki í flotanum geta verið búin ökurita sem skráir ákveðnar upplýsingar, þar á meðal staðsetningu, ökuhraða, hröðun, högg (staðsetningu, þyngdarafl og stefnu ákomu) ásamt virkni ýmissa tækja í bifreiðinni. Þessar upplýsingar eru notaðar í þeim tilgangi að bæta öryggi og rekstur, styðja við afgreiðslu vátryggingamála, aðstoða við að greina óheimila notkun, fylgjast með öryggisatriðum í akstri og stuðla að skilvirkri stýringu á bifreiðaflota.

Lánshæfismat

Með samþykki þessa skilmála veitir leigutaki, Bílaleigan Go ehf. kt., 500414-0300, fullt og ótakmarkað umboð til að sækja skýrslu um lánshæfi leigutaka til Creditinfo Lánstrausts hf. Með skýrslu um lánshæfi er spáð fyrir um líkur á alvarlegum vanskilum í framtíðinni og er byggt á þeimupplýsingum sem Creditinfo býr yfir, s.s. upplýsingum í vanskilaskrá,lýðfræðiupplýsingum (s.s. aldur og búseta), tengsl við fyrirtæki o.fl. Skýrsla um lánshæfi byggir á samkeyrslu gagna og getur innihaldið sögulegar upplýsingar, s.s. um stöðu vanskila og lánshæfismats.

Bílaleigan Go ehf. er heimilt á hverjum tíma að sækja upplýsingar um uppfærða skýrslu um lánshæfi, með vöktun á kennitölu leigutaka, sem og uppfærslu annarra upplýsinga sem umboðið nær til, á meðan umboð þetta er í gildi.

Heimilt er að afturkalla samþykki þetta og skal slík afturköllun taka gildi þegar að Bílaleigan Go ehf. hefur móttekið slíka afturköllun. Þá fellur samþykki þetta úr gildi þegar lánsviðskiptum aðila lýkur. Fram til þess tíma hefur gcr ehf. heimild til að sækja og nota þær upplýsingar sem samþykki þetta tekur til að fullnægðum þeim skilyrðum sem fram koma í samþykkisyfirlýsingu þessari.

Vanræksla vegna smurþjónustu

Framyfir kílómetra-Framyfir mánuðGjaldskrá
3.000 kmeða2 mánuðir5.000 kr
4.500 kmeða3 mánuðir20.000 kr
6.000 kmeða4 mánuðir40.000 kr
7.500 kmeða5 mánuðir65.000 kr
9.000 kmeða6 mánuðir95.000 kr
10.500 kmeða7 mánuðir130.000 kr
12.000 kmeða8 mánuðir165.000 kr
13.500 kmeða9 mánuðir215.000 kr
15.000 km eða10 mánuðir265.000 kr
16.500 kmeða11 mánuðir320.000 kr
18.000 kmeða12 mánuðir380.000 kr
20.000 km+eða13 mánuðir+450.000 kr

Skilmálar uppfærðir 16.09.2025.